Ferill 499. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 831  —  499. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2020.


1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með rúmlega 460 milljóna manna markað eftir útgöngu Bretlands úr ESB. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki.
    Heimsfaraldur COVID-19 setti mark sitt á starf þingmannanefnda EFTA og EES á árinu eins og allt annað alþjóðastarf Alþingis. Nefndirnar löguðu sig að breyttum aðstæðum með því að færa starf sitt yfir í fjarfundarform. Í stað hefðbundinna fundarhalda í aðildarríkjum EFTA og í starfsstöðvum Evrópuþingsins voru skipulagðir fleiri og styttri fjarfundir. Heimsfaraldurinn sjálfur og áhrif hans á EES-samstarfið var í brennidepli í starfi þingmannanefndanna á árinu. Farið var reglulega yfir stöðu faraldursins í einstökum aðildarríkjum EFTA, efnahagsleg áhrif hans og viðbrögð stjórnvalda. Þá var fjallað um ýmist samstarf EFTA og ESB honum tengt. Í upphafi faraldursins tókst t.d. giftusamlega að flytja Evrópubúa heim sem orðið höfðu innlyksa í fjarlægum heimshlutum þegar flugsamgöngur minnkuðu og stöðvuðust sums staðar er ströngum ferðatakmörkunum var komið á. Þá var EFTA-ríkjunum veitt undanþága frá banni ESB við útflutningi hlífðarbúnaðar fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Þátttaka EFTA-ríkjanna í sameiginlegum pöntunum og innkaupum ESB á bóluefni var nefnd sem einkar mikilvæg svo og samvinna sóttvarnaryfirvalda og lyfjastofnana EFTA-ríkjanna við sambærilegar stofnanir innan ESB. Enn fremur var samráð um þær heimildir og svigrúm sem regluverk EES-svæðisins um ríkisstyrki felur í sér einkar mikilvægt þegar ríkissjóðir Evrópuríkja gripu með fordæmalausum hætti inn í hagkerfin í því skyni að verja störf og fyrirtæki og koma þannig í veg fyrir enn dýpri efnahagskreppu.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 29 talsins og taka til 40 ríkja. Samanlagt eru þessi fríverslunarsamstarfsríki næststærsti útflutningsmarkaður EFTA á eftir ESB með 12% hlutdeild í vöruútflutningi EFTA. Heimsfaraldurinn markaði fríverslunarstarf EFTA á árinu eins og aðra þætti í starfseminni. Það hægðist á viðræðum við ný samstarfsríki í heimsfaraldrinum þótt þeim hafi að hluta verið haldið gangandi með notkun fjarfundarbúnaðar. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA átti í því skyni fjarfundi með forystufólki í taílenska þinginu og viðskiptaráðuneytinu. Búist er við að formlegar fríverslunarviðræður EFTA og Taílands hefjist að nýju árið 2021 eftir að hafa legið niðri um árabil.
    Loks var ítrekað fjallað um framtíðarsamband EFTA-ríkjanna við Bretland eftir útgönguna úr ESB og þar með EES. Af öðrum málum sem voru ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES má nefna viðskiptastefnu ESB, ákvæði fríverslunarsamninga um annars vegar rafræn viðskipti og hins vegar um vinnuvernd og sjálfbæra þróun, og gagnsæi í fríverslunarviðræðum.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.

Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þau þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum á ári og á þremur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA og utanríkisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA, auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hún hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem eiga aðild að EES (EFTA-hluta sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB.
    Sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins var komið á fót í október 2010 og er hún skipuð níu þingmönnum frá Evrópuþinginu og níu alþingismönnum. Af hálfu Alþingis sitja fimm nefndarmenn úr Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES og fjórir nefndarmenn úr utanríkismálanefnd í hinni sameiginlegu þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins.
    Þegar sameiginlega þingmannanefndin var stofnuð, í tengslum við aðildarviðræður Íslands og ESB, leysti hún af hólmi tvíhliða fundi Alþingis og Evrópuþingsins sem haldnir höfðu verið árlega frá árinu 1987. Á fundi nefndarinnar 9. febrúar 2016 var gerð breyting á starfsreglum hennar og vísun í aðildarferlið tekin út. Eftir breytinguna er skilgreint hlutverk nefndarinnar að fjalla um samskipti Íslands og ESB á breiðum grunni.
    Sameiginlega þingmannanefndin kom framan af saman tvisvar á ári, til skiptis á Íslandi og í starfsstöðvum Evrópuþingsins í Brussel eða Strassborg. Í kjölfar þess að aðildarviðræðum við ESB var hætt var fundum nefndarinnar fækkað í einn á ári líkt og tíðkaðist fyrir tíma aðildarumsóknar. Sameiginlega þingmannanefndin tekur fyrir einstök málefni sem varða samskipti Íslands og Evrópusambandsins og getur hún sent frá sér tilmæli þeim viðvíkjandi. Tilmæli verða aðeins samþykkt með því að meiri hluti fulltrúa jafnt Evrópuþingsins sem Alþingis veiti þeim stuðning. Tilmælum sameiginlegu þingmannanefndarinnar er beint til Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins, Alþingis og ríkisstjórnar Íslands. Alla jafna sitja fulltrúar ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Á vettvangi nefndarinnar gefst alþingismönnum því kostur á að eiga formbundnar og milliliðalausar viðræður við Evrópuþingmenn auk fulltrúa framkvæmdastjórnar og ráðs ESB. Nefndin er því mikilvægur vettvangur fyrir alþingismenn til að fjalla um samskipti Íslands og Evrópusambandsins.

3. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
    Árið 2020 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES: Smári McCarthy, formaður, þingflokki Pírata, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hanna Katrín Friðriksson, þingflokki Viðreisnar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn í upphafi árs voru Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Halldóra Mogensen, þingflokki Pírata, Páll Magnússon, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þorsteinn Víglundsson, þingflokki Viðreisnar. Sú breyting var gerð hinn 14. apríl 2020 að Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingflokki Viðreisnar, tók sæti sem varamaður í Íslandsdeild eftir að Þorsteinn Víglundsson hafði látið af þingmennsku. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.

4. Fundir þingmannanefndar EFTA, þingmannanefndar EES og sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB á árinu 2020.
    Starfsemi nefndanna markaðist af heimsfaraldri COVID-19 á árinu 2020. Í stað hefðbundinna fundarhalda í aðildarríkjunum og í starfsstöðvum Evrópuþingsins voru skipulagðir fleiri og styttri fjarfundir. Hér á eftir verður gerð stuttlega grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð, auk fundar sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB.

Fundur þingmannannefndar EFTA í Brussel 4. febrúar.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Helstu umfjöllunarefni fundarins voru annars vegar horfur fyrir framtíðarsamband Bretlands og ESB, en samningaviðræður um það stóðu fyrir dyrum, og hins vegar viðskiptastefna ESB.
    Fundurinn fór fram fjórum dögum eftir Brexit, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Daginn fyrir fundinn kynnti Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB fyrir Brexit og jafnframt fyrir viðræður um framtíðarsamband ESB við Bretland, drög að samningsafstöðu ESB fyrir komandi samningaviðræður. Þá hélt Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ræðu í Greenwich þar sem hann lagði fram sýn bresku ríkisstjórnarinnar fyrir framtíðarsambandið. Á fundinn komu Clara Martinez-Alberola, varaformaður starfshóps framkvæmdastjórnar ESB fyrir sambandið við Bretland, Hermione Gough, yfirmaður samstarfsmála Bretlands og ESB í fastanefnd Bretlands gagnvart ESB, og Rem Korteweg frá utanríkismálastofnun Hollands. Í erindum gestanna og umræðum sem á eftir fylgdu var m.a. farið yfir ólíka afstöðu samningsaðila. Samkvæmt drögum að samningsafstöðu ESB var lagt upp með einn samning sem ætti að ná yfir öll svið samstarfsins. ESB skipti mögulegum framtíðarsamningi niður í þrjú meginsvið; í fyrsta lagi almenn ákvæði um grunngildi, meginreglur og stofnanauppbyggingu; í öðru lagi efnahagslegar ráðstafanir sem næðu yfir viðskipti og jöfn samkeppnisskilyrði; og loks ákvæði um samstarf á sviði löggæslu, utanríkismála og öryggis- og varnarmála. Afstaða bresku stjórnarinnar var að gera víðtækan fríverslunarsamning við ESB sem næði yfir öll svið viðskipta og var vísað til samnings ESB og Kanada sem fyrirmyndar. Þar að auki yrðu gerðir samningar um fiskveiðar, loftferðir og samvinnu á sviði kjarnorkumála. Sjálfstæðu ferli til lausnar deilumála á milli aðila yrði komið á fót í þessum samningum þar sem Bretland yrði ekki undirsett Evrópudómstólnum.
    Phil Hogan, sem fer með viðskiptamál í framkvæmdastjórn ESB, kom á fundinn og fór yfir viðskiptastefnu sambandsins. Í erindi hans og umræðunum sem á eftir fylgdu var m.a. fjallað um gott samstarf ESB við EFTA-ríkin sem samanlagt hefðu verið þriðji stærsti viðskiptaaðili ESB á eftir Bandaríkjunum og Kína með 10,5% hlutdeild í heildarviðskiptum ESB. ESB hefði á undanförnum árum lagt mikla áherslu á gerð fríverslunarsamninga, bæði gerð nýrra samninga og uppfærslu þeirra sem fyrir væru. Stóru áskoranirnar nú væru viðskiptasambandið við Kína, Bandaríkin og framtíðarsambandið við Bretland. ESB legði mikla áherslu á að viðhalda og efla regluverk alþjóðaviðskipta og hefði beitt sér fyrir umbótum á Alþjóðaviðskiptamálastofnuninni, WTO. Reglur stofnunarinnar hefðu ekki verið uppfærðar í takt við þróun til síaukinna stafrænna viðskipta en reglusetning á því sviði væri forgangsmál ESB. ESB legði mikla áherslu á jöfn samkeppnisskilyrði og að regluverk girti fyrir ójafna samkeppni, svo sem undirboð í krafti ríkisstyrkja eða ósjálfbærra framleiðsluhátta.

Fjarfundur þingmannanefndar EFTA 23. apríl.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Helstu dagskrárefni voru heimsfaraldur COVID-19, hagræn áhrif faraldursins og hagstjórnarviðbrögð EFTA-ríkjanna.
    Í kynningu Aslak Berg, hagfræðings á skrifstofu EFTA, og umræðum sem á eftir fylgdu var farið yfir það sem kallað hefur verið „evrópska módelið“ í viðbrögðum við faraldrinum. Það einkennist af stórfelldri útgjaldaaukningu þar sem áhersla er lögð á að verja störf með því að ríkið taki tímabundið þátt í launakostnaði fyrirtækja í þeim geirum hagkerfanna sem hafa orðið verst úti. Markmið aðgerðanna er með einföldun þríþætt, þ.e. að koma í veg fyrir eða takmarka fjöldauppsagnir, draga úr launakostnaði fyrirtækja og viðhalda kaupmætti starfsmanna. Ýmiss konar lánafyrirgreiðsla og skattaívilnanir til fyrirtækja hafa víða fylgt svo og auknar fjárveitingar til opinberra framkvæmda til að halda uppi eftirspurn í hagkerfinu.
    Þá var farið yfir stöðu COVID-19 faraldursins í hverju EFTA-ríki fyrir sig.

Fjarfundur þingmannanefndar EFTA 19. maí.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Helstu dagskrárefni voru annars vegar samskipti EFTA og ESB í heimsfaraldri COVID-19 og hins vegar virkni innri markaðs ESB í faraldrinum.
    Á fundinum fluttu framsögur Rolf Einar Fife, formaður af hálfu EFTA í sameiginlegu EES-nefndinni, Bente Angell-Hansen, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA, og Urs Bucher, sendiherra Sviss gagnvart ESB. Í máli þeirra og umræðum sem á eftir fylgdu var lögð áhersla á gott samstarf við ESB í faraldrinum. Í byrjun faraldursins tók það t.d. til þess að flytja Evrópubúa heim sem orðið höfðu innlyksa í fjarlægum heimshlutum þegar flugsamgöngur minnkuðu og stöðvuðust sums staðar eftir því sem ströngum ferðatakmörkunum var komið á. Þá var EFTA-ríkjunum veitt undanþága frá banni ESB við útflutningi hlífðarbúnaðar fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Þátttaka EFTA-ríkjanna í sameiginlegum pöntunum og innkaupum ESB á bóluefni var nefnd sem einkar mikilvæg svo og samvinna sóttvarnaryfirvalda og lyfjastofnana EFTA-ríkjanna við sambærilegar stofnanir innan ESB. Enn fremur væri samvinna um að nýta heimildir í regluverki EES-svæðisins um ríkisstyrki einkar mikilvæg þegar ríkissjóðir Evrópuríkja gripu með fordæmalausum hætti inn í hagkerfin til þess að verja störf og fyrirtæki og halda þannig uppi eftirspurn og koma í veg fyrir enn dýpri efnahagskreppu.

Fjarfundur þingmanna og ráðherra EFTA 8. júní.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson auk Stígs Stefánssonar, ritara. Ráðherrar EFTA á fundinum voru Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtenstein, Guy Parmelin, efnahagsráðherra Sviss, og Lucie Katrine Sunde-Eidem, aðstoðarráðherra viðskiptamála í Noregi. Helstu dagskrárefni voru áhrif heimsfaraldurs COVID-19 á hagkerfi EFTA-ríkjanna, fríverslunarmál og framtíðarsamband við Bretland.
    Í umræðum um efnahagsleg áhrif COVID-19 komu m.a. fram áhyggjur af því að alþjóðlegar framleiðslukeðjur væru viðkvæmar og að kreppan af völdum faraldursins gæti ýtt undir spennu og tilhneigingar til aukinnar verndarstefnu í efnahagsmálum sem þegar hefði gætt áður en faraldurinn hófst. EFTA-ríkin væru sem fyrr mjög háð viðskiptum og þar með viðkvæm fyrir breytingum á alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Þau mundu því sem áður styðja reglu- og stofnanaverk alþjóðaviðskipta af fullum krafti og halda áfram vinnu við að útvíkka fríverslunarnet sitt. Þá kom fram að sá sveigjanleiki sem væri í reglum um ríkisstyrki og samkeppnismál á EES-svæðinu hefði auðveldað EES/EFTA-ríkjunum að bregðast við kreppunni.
    Í umfjöllun um fríverslunarsamninga EFTA kom m.a. fram að samningarnir væru 29 talsins og tækju til 40 ríkja. Samanlagt væru fríverslunarsamstarfsríkin næststærsti útflutningsmarkaður EFTA á eftir ESB með 12% hlutdeild í vöruútflutningi EFTA. Yfirstandandi viðræður við ný samstarfsríki hefðu tafist í heimsfaraldrinum en væri þó haldið gangandi að einhverju leyti með notkun fjarfundarbúnaðar. Vinna við lagalega yfirferð á fríverslunarsamningi Mercosur, sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ, hefði þannig dregist á langinn en ráðgert væri að undirrita samninginn þegar yfirferðinni er lokið. Viðræður við Indland, Malasíu og Víetnam hefðu reynst erfiðar. Þá væru viðræður yfirstandandi við Síle og Tollabandalag Suður-Afríku um að uppfæra fríverslunarsamninga EFTA við þessa aðila.
    Loks var farið yfir stöðu viðræðna um framtíðarsamband við Bretland eftir að aðlögunartímabili eftir Brexit lyki 31. desember 2020.

Óformlegur fjarfundur þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA 25. júní.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Fundurinn var upplýsingafundur þar sem helsta dagskrármálið var kynning á drögum að stöðluðum texta um rafræn viðskipti fyrir fríverslunarsamninga EFTA sem starfshópur á vegum EFTA hafði unnið. Textinn er ætlaður til nota í öllum viðræðum um nýja og uppfærða fríverslunarsamninga sem þá fengju sérstakan kafla um þetta efni. Staðlaði textinn yrði til sífelldrar endurskoðunar í takt við breytingar á þessu sviði á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Fjarfundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og sameiginlegur fjarfundur þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA 27. ágúst.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Smári McCarthy, formaður, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var rætt um starfsáætlun nefndarinnar og einkum stöðu fríverslunarviðræðna við Taíland. EFTA-ríkin flytja einkum út úr, vélar og sjávarafurðir til landsins og flytja inn rafmagnstæki og matvæli. Viðskiptajöfnuður á milli EFTA og Taílands er í jafnvægi sem er góður grunnur fyrir fríverslunarviðræður. Þá eru viðskiptahindranir og tollar háir svo það er eftir miklu að slægjast. Fríverslunarviðræður EFTA og Taílands hófust árið 2005 en hlé var gert á þeim ári síðar þegar herforingjastjórn tók völdin í landinu. Lýðræðislega kjörin stjórnvöld tóku við stjórnartaumum árið 2019 og búist er við því að formlegar viðræður hefjist að nýju árið 2021. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA hafði áætlað heimsókn til Taílands haustið 2020 til þess að styðja við ferlið en henni var frestað vegna COVID-19-heimsfaraldursins. Ákveðið var að eiga fjarfundi með viðskiptanefnd taílenska þingsins og viðskiptaráðuneyti haustið 2020.
    Á sameiginlegum fjarfundi þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA var áfram rætt um drög að stöðluðum texta um rafræn viðskipti fyrir fríverslunarsamninga EFTA sem starfshópur á vegum EFTA hafði unnið.

Fjarfundur þingmanna og ráðherra EFTA 27. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Ráðherrar EFTA á fundinum voru Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtenstein, Guy Parmelin, efnahagsráðherra Sviss, og Lucie Katrine Sunde-Eidem, aðstoðarráðherra viðskiptamála í Noregi. Áður en fundurinn með ráðherrunum fór fram hélt þingmannanefnd EFTA undirbúningsfund. Helstu dagskrármál á fundinum með ráðherrunum voru fríverslun, rafræn viðskipti, viðskipti og sjálfbær þróun, gagnsæi í fríverslunarviðræðum og framtíðarsambandið við Bretland.
    Í umfjöllun um fríverslun var farið stuttlega yfir yfirstandandi fríverslunarviðræður EFTA sem höfðu tafist vegna heimsfaraldurs COVID-19 en að nokkru leyti þó haldið áfram um fjarfundarbúnað. Þannig fundir hefðu farið fram við Víetnam, Mercosur, Taíland, Suður-Kóreu og Síle. Lagaleg yfirferð á fyrirliggjandi fríverslunarsamningi EFTA við Mercosur, sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ, stæði enn yfir en ráðgert væri að undirrita samninginn þegar yfirferðinni er lokið. Þá væri vonast til að formlegar fríverslunarviðræður við Moldóvu, Kósóvó og Taíland hæfust á árinu 2021. Enn fremur kom fram að mikil áhersla væri lögð af hálfu Íslands og Noregs á að vinna að uppfærslu á fríverslunarsamningi EFTA við Kanada.
    Þá var farið yfir vinnu innan EFTA að stöðluðum texta um rafræn viðskipti fyrir fríverslunarsamninga EFTA. Textinn er ætlaður til nota í öllum viðræðum um nýja og uppfærða fríverslunarsamninga sem þá fengju sérstakan kafla um þetta efni. Því næst var farið yfir vinnu innan EFTA að endurskoðun kafla um vinnuvernd og sjálfbæra þróun sem verið hefur í öllum fríverslunarsamningum EFTA frá árinu 2010.
    Í umfjöllun um gagnsæi í fríverslunarviðræðum var fjallað um aðgerðir til þess að auka upplýsingagjöf til þjóðþinga, hagsmunaaðila, frjálsra félagasamtaka og almennings í EFTA-ríkjunum um fríverslunarviðræður á meðan á þeim stendur. Loks var farið yfir stöðu viðræðna um framtíðarsamband við Bretland eftir að aðlögunartímabili eftir Brexit lyki 31. desember 2020.

Fjarfundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins 9. nóvember.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Sigríður Á. Andersen, formaður, Smári McCarthy, varaformaður, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Gunnarsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur og Stígs Stefánssonar, ritara. Fyrir hönd Evrópuþingsins sátu fundinn þingmennirnir Andreas Schwab, Zdzislaw Krasnodebski, Alessandro Panza og Christel Schaldemose. Fundinum stýrðu Sigríður Á. Andersen og Andreas Schwab. Helstu dagskrármál voru samvinna á tímum COVID-19-heimsfaraldursins, samskipti Íslands og ESB og þróun Schengen-samstarfsins.
    Í umræðu um samskipti Íslands og ESB sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, EES-samninginn vera hornsteininn í samskiptum Íslands og ESB. Hann lagði áherslu á mikilvægi samvinnu ríkja í baráttunni við COVID-19-faraldurinn og að taka þyrfti tillit til landfræðilega einangraðra svæða. Þá væri mikilvægt að ESB og Bretland kæmust að samkomulagi um útgöngusamning Bretlands úr ESB þar sem útganga án samnings yrði skaðleg fyrir efnahag EES-ríkjanna og Íslands. Guðlaugur Þór upplýsti að Ísland og Bretland ættu í tvíhliða viðræðum um ýmis mál, m.a. um viðskipti, fiskveiðar, menntun og almannatryggingar. Þá hygðist Ísland óska eftir endurskoðun tollasamninga Íslands og ESB um landbúnaðarafurðir og -vörur sem undirritaðir voru 2015. Jafnframt væri nauðsynlegt að efla samvinnu Íslands og ESB um viðskipti með sjávarafurðir. Amelie Weidner kom fram fyrir hönd þýsku formennskunnar í ráði ESB og ítrekaði mikilvægi góðrar samvinnu á tímum COVID-19-faraldursins, ekki síst í málaflokkum á borð við menntun, rannsóknir og nýsköpun. Lykilatriði væri að standa vörð um innri markaðinn á öllu EES-svæðinu svo tryggja mætti hagsæld svæðisins og samkeppnishæfni. Clara Ganslandt, yfirmaður Vestur-Evrópudeildar utanríkisþjónustu ESB, sagði EES-samninginn grundvöll góðrar samvinnu Íslands og ESB. Samningurinn hefði gert það mögulegt að bregðast við COVID-19-faraldrinum á skjótan hátt, t.d. hvað varðar afhendingu lækningatækja og þátttöku í sameiginlegu innkaupakerfi (e. joint procurement mechanism) innan EES-svæðisins. Ganslandt hrósaði Íslandi fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans og fjármálapakkans og vonaðist eftir skjótri innleiðingu á umhverfisvæna orkupakkanum (e. clean energy package). Hvað varðar útgöngu Bretlands úr ESB þá sagði Ganslandt að innan ESB ríkti skilningur á áhyggjum Íslands og nauðsyn þess að EES/EFTA-ríkin væru reglulega upplýst um gang mála. Sigríður Á. Andersen lagði áherslu á mikilvægi aðkomu Íslands að ákvörðunum ESB á mótunarstigi, sérstaklega á þeim sviðum sem Ísland hefði mestra hagsmuna að gæta. Andreas Schwab sagði samvinnu ESB og Íslands ná til sviða langt utan við gildissvið EES-samningsins og tók sem dæmi að ráðstefna forseta þjóðþinga Evrópu (e. Conference of Presidents of the European Parliament) hefði ákveðið að hefja formleg samskipti við Norðurlandaráð.
    Í umræðu um samvinnu á tímum COVID-19-faraldursins fluttu Zdzislaw Krasnodebski og Sigríður Á. Andersen framsögur. Krasnodebski hrósaði íslenskum stjórnvöldum fyrir það hvernig tekist hefði verið á við faraldurinn á Íslandi með reglubundnum skimunum og rakningu smita. Þá væri hann forvitinn að vita af hverju smitum færi fjölgandi í seinni bylgju faraldursins og hefði jafnframt áhuga á að heyra nánar um nýjar hömlur sem Ísland hefði sett á ferðalög. Sigríður sagði að þegar ráðist hefði verið í aðgerðir í fyrri bylgjunni hefði hún þegar verið á niðurleið svo að erfitt væri að meta raunverulegan árangur aðgerðanna. Markmið aðgerðanna á Íslandi hefði verið að fletja út kúrvu faraldursins til að tryggja að heilbrigðiskerfið stæðist álagið, sem hefði tekist vel. Hún áréttaði að harðar takmarkanir hefðu neikvæð áhrif á heilbrigðiskerfið og velferð samfélagsins og því væri mikilvægt að gæta meðalhófs og líta til sjálfbærra aðgerða sem gætu varað til lengri tíma. Harðari aðgerðir skiluðu ekki endilega jákvæðari útkomu og nauðsynlegt væri að vega þær og meta með tilliti til skerðingar á grunnréttindum borgaranna. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði að aðgerðir íslenskra stjórnvalda væru að skila árangri og fjöldi nýrra smita væri á niðurleið. Að hans mati væri þó ekki hægt að viðhalda hömlum til lengri tíma heldur þyrfti samfélagið að læra að lifa með þessum nýja veruleika. Hanna Katrín Friðriksson sagði mikilvægt að standa vörð um réttindi borgaranna og lýsti yfir áhyggjum af stöðu ungs fólks í faraldrinum. Mikilvægt væri að þessi hópur gleymdist ekki og huga þyrfti að framtíð þeirra, menntun og félagsfærni. Schwab tók undir orð Hönnu Katrínar og sagði mikilvægt að beina frekari sjónum að ungu fólki í faraldrinum. Christel Schaldemose sagði að auka þyrfti samvinnu innan ríkja ESB á sviði heilbrigðismála.
    Næst var fjallað um þróun Schengen-samstarfsins þar sem Sigríður Á. Andersen og Andreas Schwab fluttu framsögur. Í framsögu sinni sagði Sigríður Schengen-samstarfið vera Íslandi mjög mikilvægt, sérstaklega með tilliti til aukinna umsvifa í ferðaþjónustu. Mikilvægt væri að ræða frekari þróun samstarfsins, ekki síst ferli umsókna um alþjóðlega vernd. Ísland hefði hlutfallslega tekið á móti miklum fjölda hælisleitenda. Sameiginlegur skilningur og samstaða þyrfti að ríkja milli Schengen-ríkjanna og styrkja þyrfti ytri landamæri ESB. Skoða mætti hvort unnt væri að meðhöndla umsóknirnar á ytri landamærunum frekar en í ríkjunum sjálfum þar sem oft tæki langan tíma að auðkenna umsækjendur sem koma frá öðrum Schengen-ríkjum. Schwab sagði að staðan væri flókin og ekki væri raunhæft að meðhöndla umsóknir á ytri landamærunum að svo stöddu. Þróun á sviði ETIAS-ferðaheimildarkerfisins fæli aftur á móti í sér sóknarfæri og væri ætlað að auðvelda ferðir yfir landamæri en tryggja á sama tíma öryggi og draga úr ólögmætum fólksflutningum.

Fjarfundur þingmannanefndar EES 16. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Helstu dagskrármál fundarins voru staða EES-samstarfsins, virkni innri markaðarins á tímum heimsfaraldurs COVID-19 og áhrif Brexit á EES.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Frummælendur voru Kathleen Stranz, fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, og Sabine Monauni fyrir hönd formennsku EFTA í EES-ráðinu og sameiginlegu EES-nefndinni. Í umfjöllun þeirra og umræðunni sem á eftir fylgdi var m.a. fjallað um áskoranir EES-samstarfsins. Fjallað var um heimsfaraldurinn og efnahagskreppuna af hans völdum og gott samstarf innan EES við erfiðar aðstæður. Náðst hefði að taka nýjar gerðir ESB vegna COVID-19 hratt upp í EES-samninginn. Svigrúm hefði verið veitt frá reglum um ríkisstyrki og árangur hefði náðst í upptöku gerða á vettvangi fjármálamarkaða. Þó væri vandamál hve margar gerðir biðu upptöku í EES-samninginn þegar hröð upptaka væri forsenda reglusamræmis og þar með virkni innri markaðarins. Smári McCarthy lagði áherslu á að EES-samstarfið stæði sterkum fótum og auka þyrfti upplýsingagjöf til almennings um kosti þess, bæði á EFTA- og ESB-hlið samstarfsins.
    Loks var farið yfir stöðu viðræðna um framtíðarsamband við Bretland eftir að aðlögunartímabili eftir Brexit lyki 31. desember 2020.

Fjarfundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA 17. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara.
    Á fundinum fékk framkvæmdastjórnin kynningu á tillögu að fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA fyrir árið 2021 og gekk frá ráðgefandi áliti sínu um hana.

Fjarfundur þingmanna og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna 18. nóvember 2020.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Ráðherrar á fundinum voru Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs.
    Á fundinum var greint frá fundi EES-ráðsins sem ráðherrarnir sátu fyrr um daginn ásamt fulltrúum ráðs, framkvæmdastjórnar og utanríkisþjónustu ESB. Þar var einkum fjallað um áhrif heimsfaraldurs COVID-19 á EES-samstarfið og virkni innri markaðarins. Fram kom að faraldurinn kallaði á enn frekari samvinnu á sviðum allt frá þróun bóluefnis og sameiginlegum innkaupum á læknabúnaði til stýringar landamæra og ríkisstyrkja. Fram kom að í faraldrinum hefði samstarf á milli framkvæmdastjórnar ESB og Eftirlitsstofnunar EFTA um framkvæmd reglna um ríkisstyrki gengið sérlega vel.

    Fjarfundir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA með fulltrúum þings og viðskiptaráðuneytis Taílands 23. og 27. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Smári McCarthy, formaður, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara.
    Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Fríverslunarviðræður EFTA og Taílands hófust árið 2005 en hlé var gert á þeim ári síðar þegar herforingjastjórn tók völdin í landinu. Lýðræðislega kjörin stjórnvöld tóku við stjórnartaumum árið 2019 og búist er við því að formlegar viðræður hefjist að nýju árið 2021. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA hafði áætlað heimsókn til Taílands haustið 2020 til þess að styðja við ferlið en átti í stað þess fundi með fjarfundarbúnaði. Frá taílenska þinginu var fundað með Chuan Leekpai, forseta fulltrúadeildarinnar, Anwar Salaeh, formanni viðskiptanefndar, Worrasit Kantinan, formanni iðnaðarnefndar, og Suthep U-on, formanni vinnumálanefndar. Einnig var fundað með Sansern Samalapa, aðstoðarráðherra viðskiptamála. Á öllum fundum ræddu þingmenn EFTA um mikilvægi viðskipta og hvernig afnám hindrana gæti orðið þáttur í því að komast út úr þeirri efnahagskreppu sem heimsfaraldur COVID-19 hefði valdið. Farið var yfir stöðu viðskipta á milli EFTA og Taílands og lögð áhersla á aukin tækifæri til viðskipta og fjárfestinga sem falist gætu í fríverslunarsamningi á milli aðilanna. EFTA-ríkin og Taíland ættu það sameiginlegt að vera virkir þátttakendur í alþjóðaviðskiptum auk þess sem tvíhliða viðskipti þeirra væru í jafnvægi. Þau væru því í góðri stöðu til þess að gera fríverslunarsamning með ávinningi fyrir báða aðila.

Fjarfundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA 7. desember.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Helsta dagskrárefni fundarins var að leggja drög að starfsáætlun þingmannanefndar EFTA á árinu 2021.

5. Ályktanir árið 2020.
Ályktun þingmannanefndar EES:
          Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2019, samþykkt á fjarfundi 16. nóvember 2020.

Alþingi, 2. febrúar 2021.

Smári McCarthy,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
varaform.
Brynjar Níelsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson.